Skýrsla framkvæmdarstjóra

Það er óhætt að segja að árið 2018 hafi verið framfara ár hjá Ungmennafélaginu Aftureldingu. Félagið stækkar hratt í ört stækkandi bæjarfélagi. Við sem störfum hjá félaginu finnum að félagið er á uppleið og það er ákaflega ánægjulegt að finna kraftinn sem býr í iðkendum, þjálfurum og ekki síst sjálfboðaliðunum sem drífa starfið áfram.

Mannauður

Breytingar urðu á skrifstofu félagsins á vormánuðum þegar Vilborg Jónsdóttir, sem verið hafði bókari félagsins í hartnær 10 ár, ákvað að breyta til og hverfa til annarra starfa. Óhætt er að segja að missir hafi verið af Vilborgu sem hafði þjónað félaginu afar vel af samviskusemi og aðlúð í fjölda ára. Vilborg var sæmd silfurmerki félagsins í apríl 2018.

Í ljósi þessara breytinga var tekin sú ákvörðun að úthýsa bókhaldinu. Bókhaldsfyrirtækið Fjárhúsið var ráðið til verksins. Þegar upp var staðið verður að teljast mistök að hafa úthýst bókhaldinu. Bókhald íþróttafélags er flókið og teljum við í dag skynsamlegra að hafa bókhaldið nær okkur og unnið í húsi af reynslumiklum starfsmanni. Að úthýsa bókhaldinu var þó tilraunarinnar virði og lærðum við sem vinnum að fjármálum félagsins mikið af þessari ákvörðun. Ákveðið var að ráða inn starfsmann í 50% til að vera tengilið við Fjárhúsið í október en nú þegar því samstarfi lauk í byrjun árs 2019 urðu frekari breytingar á starfsmannahaldi.

Starfsfólk á skrifstofu á árinu 2018 voru eftirfarandi:
Jón Júlíus Karlsson, framkvæmdastjóri, Hanna Björk Halldórsdóttir íþróttafulltrúi og Ásdís Jónsdóttir fjármálafulltrúi. Vilborg Jónsdóttir lét af störfum í lok apríl 2018. Gott og mikið starf er unnið á skrifstofu Aftureldingar í nánu samstarfi við sjálfboðaliða félagsins. Einnig hafa þau Ingibjörg Antonsdóttir, fimleikar, Alexander Sigurðsson, fimleikar og Bjarki Már Sigurðsson, knattspyrna, skrifstofuaðstöðu á skrifstofu félagsins.

Aðstöðumál

Óhætt er að segja að Aftureldingu hafi tekist að setja aðstöðumál félagsins á oddinn fyrir sveitastjórnarkosningar 2018. Haldinn var fjölsóttur íbúafundur í Hlégarði þar sem staða félagsins var rædd en flestir voru sammála um að nauðsynlegt væri að efla aðstöðu félagsins verulega.

Í dag má segja að hjólin séu farin að snúast hratt. Um áramót var skipt um gólfefni í eldri íþróttasal að Varmá sem lengi hafði verið barist fyrir. Næsta sumar verður skipt um gólf í nýrra íþróttahúsi þar sem lagt verður parket sem mun gleðja íþróttafólk Aftureldingar og alla þá er koma að íþróttastarfinu að Varmá.

Ákvörðun um byggingu á fjölnota knatthúsi var samþykkt í bæjarstjórn á haustmánuðum 2018 og rís húsið nú hratt. Það hús mun hafa mjög jákvæð áhrif á starf knattspyrnudeildar og ekki síst afreksstarf í félaginu. Húsið mun einnig þjóna fleiri íþróttagreinum og einnig íbúum Mosfellsbæjar til heilsueflingar.

Aðstöðumál félagsins verða áfram í brennidepli næstu misserin. Jákvætt samstarf hefur verið við Mosfellsbæ á undanförnum mánuðum hvað aðstöðumál snertir og erum við sem stýrum félaginu mjög bjartsýn á að aðstaða félagsins muni taka miklum framförum á næstu mánuðum og árum.

Fjármál

Fjárhagsstaða deilda Aftureldingar er almennt í góðu horfi. Flestar deildir eru reknar með hagnaði í ár og varasjóðir til staðar. Jákvæð þróun hefur orðið á fjárhagsstöðu þeirra ráða sem hafa lent í rekstrarerfiðleikum á undanförum árum. Rekstur aðalstjórnar gekk vel og skilar um 3 milljón króna hagnaði á rekstrarárinu 2018. Samanlagður hagnaður af starfsemi Aftureldingar var 23,5 milljónir á síðasta rekstrarári og var jákvæð afkomu hjá 11 ráðum af 17.

Óhætt er að hrósa gjaldkera Aftureldingar, Sigurði Rúnari Magnússyni, fyrir frábær störf á árinu 2018. Sigurður hefur starfað fyrir félagið í mörg ár og hefur á síðustu mánuðum kafað ofan í fjármál hjá öllum deildum félagsins. Sú reynsla sem hann býr yfir og þekking er fjársjóður fyrir félagið og hefur okkar samstarf á árinu verið með miklum ágætum.

Stefnan á árinu 2019 er að bæta enn í gæði þeirrar fjármálavinnu sem unnin er á skrifstofu Aftureldingar með það að markmiði að aðstoða deildir enn frekar við rekstur.

Nýir samningar við Mosfellsbæ voru samþykktir í nóvember 2018. Í þeim felst aukin stuðningur frá Mosfellsbæ við það frábæra íþróttastarf sem unnið er að Varmá. Styrkir nýtast barna- og unglingaráðum og einnig meistaraflokkum félagsins.

Næstu skref

Afturelding er ein af meginstoðum bæjarlífsins í Mosfellsbæ. Hér er unnið frábært starf af þjálfurum og ekki síst sjálfboðaliðum – alla daga ársins. Það er frábært að horfa til okkar ungu iðkenda blómstra í sinni íþróttagrein og að sjá afreksíþróttafólk vaxa og taka framförum.

Ungmennafélagið Afturelding verður 110 ára á árinu 2019 og fer ég inn í það starfsár fullur tilhlökkunar. Að endingu vil ég þakka fyrir frábært starfsár 2018. Það er mikill heiður að vinna með öllum þeim frábæru sjálfboðaliðum, þjálfurum og iðendum sem félagið getur státað sig af. Hjól Aftureldingar eru drifin áfram af sjálfboðaliðum sem af ósérhlífni leggja mikið á sig fyrir félagið félagið sitt og stuðla að því að ungviðið í Mosfellsbæ blómstri. Fyrir þá vinnu getum við öll verið afar þakklát.

Áfram Afturelding!

Jón Júlíus Karlsson
framkvæmdastjóri Aftureldingar