Ávarp formanns

Árið 2018 var viðburðarríkt hjá Aftureldingu og mun ég hér að neðan rekja helstu verkefni félagsins á starfsárinu. Fyrsta verkefni aðalstjórnar var að halda opinn fund fyrir frambjóðendur til sveitastjórnarkosninga – þar var aðaláhersla okkar á aðstöðumál en þessi stjórn setti þá málefni á oddinn. Fundurinn gekk vel og hefur margt áunnist í kjölfar hans.

Stjórnin setti sér starfsáætlun strax á fyrsta fundi og hefur fylgt henni út tímabilið, fundir hafa verið reglulegir sem og formanna- og deildarfundir. Nýr fjögurra ára samningur var undirritaður við Mosfellsbæ sem við erum mjög sátt við.

Frábær árangur náðist í hinum ýmsu íþróttagreinum. Íþróttamaður ársins 2018 var kjörinn Andri Freyr Jónsson knattspyrnumaður og íþróttakona ársins var kjörin Taekwondokonan María Guðrún Sveinbjörnsdóttir, þess má geta að þau voru bæði einnig kjörin íþróttamaður og kona Mosfellsbæjar og erum við í Aftureldingu virkilega stolt af þeim báðum enda miklar fyrirmyndir.

Töluverð fjölgun iðkenda

Mikill vöxtur er í félaginu og fjölgun iðkenda er 132 milli ára eða 10,55%, mest er fjölgunin í knattspyrnudeild eða aukning um 111 iðkendur sem gerir fjölgunina þar 26,2%. Slíkri fjölgun fylgja eðlilega vaxtaverkir og erum við mjög spennt yfir fjölnota íþróttahúsi sem verður tekið í notkun á haustdögum 2019, eins er verið að vinna í aðstöðumálum heildrænt í samstarfi við Mosfellsbæ sem á og rekur mannvirkin.

Það er mikill kraftur um þessar mundir í Aftureldingu og á árinu 2018 bættist ellefta deildin við sem er starfrækt sem hjóladeild í mótun. Á árinu 2018 eignuðumst við nýja íslandsmeistara í nokkrum greinum til að mynda knattspyrnu, karate og taekwondo.

Félagið heldur úti meistaraflokkum í Blaki, handknattleik og knattspyrnu. Í blaki spila báðir meistaraflokkar í efstu deild. Meistaraflokkur karla í handknattleik spilar í efstu deild, Olís deildinni og meistaraflokkur kvenna sigraði næstefstu deild, Grill66 og spilar því í efstu deild næsta tímabil. Meistaraflokkur karla í knattspyrnu varð íslandsmeistarar í 2. deild 2018 og munu því báðir meistaraflokkarnir spila í næst efstu deild, Inkasso næsta ár. Margir af okkar iðkendum eru að taka þátt í landsliðsverkefnum sem er mikil viðurkenning fyrir þau.

Í annað sinn var haldinn starfsdagur í félaginu þar sem þjálfurum og sjálfboðaliðum var boðið í Hlégarð til að hlusta á fræðandi og áhugaverð erindi er snerta okkur öll í íþróttunum svo sem áhrif höfuðhöggs og forvarnargildi skipulagrar íþróttaiðkunnar. Mikil ánægja var með daginn og voru allar æfingar felldar niður þennan dag. Markmið starfsdags er fyrst og fremst að fræða þjálfara og auka félagsleg tengsl milli deilda enda ekki á hverjum degi sem þessum mannauði gefst tækifæri til að hittast öll á sama stað á sama tíma.

Ég held að það sé rík ástæða til að vera virkilega bjartsýn á framtíðina í Aftureldingu og ég hlakka til næsta starfsárs.

Áfram Afturelding!

Birna Kristín Jónsdóttir,
formaður Aftureldingar