Skýrsla stjórnar

Á aðalfundi 2018 var ákveðið að sameina meistaraflokksráð karla og kvenna  en halda fjárhag aðskildum eins og verið hefur.  Í það ráð buðu sig fram eftirtaldir: Guðbrandur Pálsson, sem er formaður ráðsins, Hafdís Björnsdóttir gjaldkeri mfl kvk, ég, Guðrún K Einarsdóttir gjaldkeri mfl kk, Kristín Ingvarsdóttir, Ragna Leifsdóttir og Þórey Björg Einarsdóttir.

Í ráði 1-3 deildar og trimmhóps sátu : Kristín Inga Guðmundsdóttir, formaður, Margrét Ragnarsdóttir gjaldkeri, Berglind Valdimarsdóttir og Ása Dagný Gunnarsdóttir.

Í BUR – Barna-og Unglingaráði sátu: Jórunn Edda Hafsteinsdóttir, formaður, Einar Friðgeir Björnsson gjaldkeri, Finnur Ingimarsson ritari,Sveinn Hinrik Guðmundsson  og Droplaug Nanna Magnúsdóttir.

Ákveðið  var á síðasta aðalfundi að stofna svokallað heimaleikjaráð en það hefur ekki tekist sem skyldi. Hins vegar fengu allir hópar sem æfa undir merkjum Blakdeildar Aftureldingar hlutverk í umsjón á heimaleikjum liðanna okkar og hefur það gengið ágætlega.

Blakhóparnir

Árið 2018-2019  eru 7 mismunandi hópar að æfa hjá okkur og bættist sá áttundi  við eftir áramót. Á árinu 2017-2018 voru þeir 6.

Þessir hópar eru: Meistarflokkar karla og kvenna, 1-3 deild kvenna sem eru í rauninni 3 lið en telst sem einn hópur,  Afturelding Töff sem telja 2 lið,  Afturelding karlahópur sem spilar á Öldungamótum og æfir einu sinni í viku, Blakhópurinn Steve Öxl sem er karlahópur sem einnig æfir einu sinni í viku og karlahópurinn Afturelding-Polska sem spila nú undir merkjum félagsins og hafa fengið einn fastan æfingatíma í viku og fá að hoppa inn með annan þegar laust er. Áttundi hópurinn sem bættist við núna í febrúar er nýliðahópur kvenna og hafa þær verið að mæta um 8-10 já æfingar sem Kristina Apostolova tók að sér að sjá um en ég var búin að fá nokkrar fyrirspurnir um hvort ekki væri blak fyrir byrjendur sem komnir væru yfir tvítugt og þar sem það var laus völlur þá skelltum við í byrjendahóp.

Fjárhagslegt umhverfi

Fjárhagslega þá er umhverfið erfitt fyrir blakíþróttina því erfitt er að selja auglýsingar á eitthvað sem er aldrei sýnt í sjónvarpi eða fjallað um í fjölmiðlum og því eru þær fjáraflanir sem við höfum okkur afar dýrmætar.  Þar erum við að tala um æfingabúðir bæði fyrir börn og fullorðna sem og skemmtimót og Íslandsmót. Sameiginleg fjáröflun Barna – og unglingaráðs og meistarflokkanna okkar er happdrættið og er það ákaflega mikilvæg fjáröflun og vonast ég til þess að allir iðkendur blakdeildar kaupi amk 1-2  miða til að styrkja starfið.

Sala á auglýsingaskiltum í sal 3 er hlutur sem við viljum koma í betra horf og sjá þar auglýsingar frá þeim fyrirtækjum sem styrkja okkur sannarlega en ekki gamlar auglýsingar sem einhvern veginn eru bara þarna  og vonumst við til þess að fá inn fastan tekjupóst úr þeim.  Svo ef einhver hefur tengingu inn í fyrirtæki sem er til í að hafa skiltið sitt upp í sal 3 þá er sú ábending virkilega vel þegin.

Starfið

Það eru flestir sammála því að afreksstarf er nauðsynlegt innan íþróttafélaga og að það hvetji yngri iðkendur til dáða og fyrir þá sem stefna hærra þá er það nauðsynlegt.  Hér í nálægðinni við höfuðborgarsvæðið er það ennþá mikilvægara að geta verið með gott starf í afreksíþróttum í heimabyggð því það er stutt í öll félögin í nágrenninu. Auk þess er það skylda blakdeildar að bjóða upp á almenningsíþróttir og bjóða börnum og unglingum að æfa íþróttina þó þau vilji ekki endilega verða afreksmenn.   Okkar vandamál er hins vegar eins og ég hef komið inn á hér, að íþróttin okkar er lítið sýnileg og því ekki sjálfsagt að börn og ungmenni velji sér að æfa blak í Mosfellsbæ.

Við megum ekki kynna þetta inn í skólunum okkar hér í bæ og er það ákaflega undarleg stefna og vil ég  nota tækifærið og hvetja aðalstjórn Aftureldingar til þess að beita sér í því að afnema þennan sið sem hefur verið komið á af skólunum en eins og allir vita þá er íþróttaþátttaka barna og ungliga ein besta forvörnin og undarlegt þegar bæjaryfirvöld vilji ekki styðja við það starf.

Í ár er blakdeildin okkar 20 ára.

Þegar við fórum af stað með barna og unglingastarfið í deildinni haustið 2002 í kjölfarið á fyrsta Öldungamótinu okkar, Mosöld 2002 þá fór ég persónulega í alla bekki  í Lágafellsskóla og Varmárskóla til að kynna æfingarnar og íþróttina.  Seinna var tekið fyrir það en ég mátti búa til miða og setja í hólf kennarana sem þeir svo dreifðu til barnanna. Svo var tekið fyrir það líka og nú má ekkert.  Fjöldi iðkenda í blaki hefur ekki aukist en forsendur til að það gerista er kynning á starfinu. Kynningarnar eru ástæðan fyrir því að hægt sé að bjóða upp á íþróttir í félaginu okkar.

Sumar íþróttir þarf að kynna betur en aðrar og því skora ég á aðalstjórn að fá leyfi fyrir þær íþróttagreinar sem ekki fá áheyrn í sjónvarpi eða umfjöllun í blöðum en eru sannarlega í boði innan Aftureldingar  að þær fái að kynna starf sitt innan veggja skólanna. Það er jú skrautfjöður félagsins hversu margar íþróttagreinar er boðið upp á í félaginu og okkar og við verðum að reyna að halda því.

Draumurinn er jú að bæjaryfirvöld greiði laun þjálfara þannig að hægt sé að bjóða öllum börnum í bænum á aldrinum 6-12 ára fría íþróttaiðkun og þau geti prufað allar íþróttagreinar og valið sér síðan í kjölfarið þær greinar sem þau heillast mest af.

Flaggskip Blakdeildarinnar eru að sjálfsögðu meistaraflokkarnir okkar sem spila í úrvalsdeildum karla og kvenna og eru það fyrirmyndir ungu iðkendanna okkar og liggur það í hlutarins eðli að þær eru dýrastar í rekstri og því leggjum við mikla áherslu á að finna stuðningsaðila til að auðvelda þann rekstur en rekstarstyrkur Mosfellsbæjar er mikil búbót í því verkefni. Barna-og Unglingadeildin okkar hefur alfarið séð um að manna bolta og miðasölu á leikjum meistaraflokkanna okkar og rennur miðasalan óskipt í þeirra sjóð.

Blakdeildin rekur  Aftureldingarbúðina sem  hefur ekki gefið mikið af sér en búið er að fjárfesta í vörum þar til að bjóða foreldrahópum upp á Aftureldingarvörur í íþróttamiðstöðinni svo ekki þurfi að leita út fyrir bæjarmörkin fyrir þá hluti.

Í haust gekkst blakdeildin fyrir þvi að öllum börnum í Aftureldingu væru gefin endurskinsmerki og komu nokkur fyrirtæki í bænum  að með styrkjum í það verkefni.  Í haust er meiningin að öllum börnum í bænum verði boðið upp á gefins endurskinsmerki með merki félagsins og vonandi náum við inn enn fleiri fyrirtækjum til að styrkja það framtak.

Aðstaðan

Á síðasta ári var mikil umræða um gólfefnin í íþróttamiðstöðinni og í sal 3 meðal annars, þar sem blakdeildin æfir og keppir. Aðalstjórn félagsins stóð fyrir borgarafundi með bæjarfulltrúum og þeim sem voru í kjöri til bæjarstjórnar s.l. vor og gerðu gólfefnin og viðhald þeirra að fundarefni. Velina Apostolova fór fyrir okkar hönd og las upp bréf sem formanni barst frá Blaksambandi Íslands þremur árum áður þar sem við vorum á undanþágu vegna lélegrar aðstöðu og slæms undirlags fyrir keppendur.

Mikil vinna var lögð í að finna rétt gólf og fá verð í það en eins og yfirvöldum er gjarnt þá gengu hlutirnir hægar fyrir sig en við hefðum kosið.  Að lokum komst niðurstaða í málið í byrjun nóvember og var ákveðið að fara í þetta um jól og áramót.

Við það féllu niður æfingar hjá okkar hópum í sal 3 en með miklu púsluspili allra deilda og velvilja alls staðar frá fengu flestir hóparnir okkar æfingatíma meðan á þessu stóð og vil ég koma á framfæri sérstaku þakklæti til Hönnu Bjarkar íþróttafulltrúa Aftureldingar fyrir hennar aðkomu að þessu púsluspili sem og velvilja annarra deilda til að leysa æfingaaðstöðu okkar á meðan á þessu verkefni stóð.

Í dag erum við komin með glæsilegt gólf með frábæru undirlagi sem mikil ánægja er með og breytir allri umgjörð og birtunni í salnum.

Á síðasta aðalfundi í mars 2018 stakk framkvæmdarstjóri félagsins, Jón Júlíus Karlsson upp á því að deildin setti upp fána með myndum af leikmönnum meistaraflokkanna okkar í salinn til að gera hann flottari og til að hafa afreksfólkið okkar sýnilegt.  Hugmyndin var gripin á lofti og fengin var grafískur hönnuður til að gera glæsilega fána sem komu svo um það leiti sem nýja gólfið var tilbúð.  Hins vegar virðist svo sem að íþróttakennarar Varmárskóla séu á móti því að í salnum hangi myndir af afreksfólkinu okkar og persónulega er það mér algjörlega óskiljanlegt.  Fór svo að samþykkt var að við fengjum að hafa þessu flottu fána okkar eingöngu þegar leikir væru í salnum.  Einnig höfum við farið fram á það í mörg á að blakbúnaðurinn, súlurnar og netin séu geymd í salnum sjálfum á veggjunum en það hefur ekki heldur fengist í gegn sem og að fá auðan vegg til að æfa við en það er eitt af undirstöðuæfingum sem eru gerðar í blaki. Að æfa einn upp við vegg.

Búningamálin

Búningasamningur félagsins við Errea var ekki endurnýjaður á síðasta ári og var gengið til samninga við JAKO. Ljóst var í upphafi að þeir væru ekki með blakbúninga fyrir kvennaliðin okkar og var það sammælum bundið að JAKO myndi ganga svo frá málum að það yrði gerður blakbúningur fyrir konurnar.  Nú er leiktíðin að verða búin og ekki bólar á neinum blakbúningum. Fyrst áttu þeir að koma í janúar, svo í byrjun mars og þá voru það öðruvísi búningar en í upphafi var lagt upp með og teikning sú sem var búið að samþykkja sýndi  en við höfum ekki fengið neitt.  Vonast ég til þess að búninganefndin og eða framkvæmdarstjóri félagsins fari í það að leysa þau mál svo kvennalið blakdeildarinnar geti spilað í sama merki og aðrir í Afureldingu á næstu leiktíð því það  er ljóst að það verður ekki á þessari leiktíð spilað í JAKO búningum.

Blakfólk deildarinnar

Blakkona Aftureldingar var valin Velina Apostolva og Blakmaður Aftureldingar var Radolaw Rybak og voru þau bæði mjög vel að þessum tilnefningum komin en þau spiluðu bæði mjög stór hlutverk í úrvalsdeildarliðum okkar á síðustu leiktíð.

Thelma Dögg Grétarsdóttir sem er uppalin í Aftureldingu var  kosin Blakkona Blaksambands Íslands annað árið í röð og erum við ákaflega stolt af okkar konu og vonumst til að sjá hana innan okkar raða aftur.

Uppskera tímabilsins 2017-2018 var góð í heildina fyrir blakdeildina. Bæði úrvalsdeildarliðin okkar komust í úrslitakeppnina í Íslandsmótinu og kvennaliðið komst í undanúrslitin í bikarkeppninni 2018 en  tapaði úrslitaviðureiginni við Þrótt Nes og hlaut því silfurverðlaun á Íslandsmótinu.

Eins og staðan er í dag þá hafa bæði úrvalsdeildarliðin okkar tryggt sig inn í úrslitakeppni Íslandsmótsins þar sem þau lentu bæði í 3.sæti í Mizunodeildunum. Bæði liðin fá HK sem keppinauta um að komast í úrslitarimmuna um Íslandsmeistaratitilinn.

Afturelding átti hins vegar ekkert lið í Final 4 helginni í Kjörísbikarnum 2019 og er það í fyrsta skiptið síðan félagið tefldi fram liði í efstu deild.

Landsliðin

Blakdeildin átti marga fulltrúa í æfingahópum og landsliðum Íslands á liðnu ári, bæði í unglinga- sem og A landsliðunum eins og sást á uppskeruhátíð Mosfellsbæjar í janúar en 18 unglingar tóku þátt í æfingum landsliða á árinu.

Íslandsmótið

Í haust sendi blakdeildin 3 karlalið og 5 kvennalið á Íslandsmót Blaksambands Íslands.  Eitt drengjalið og eitt  stúlknalið taka  þátt í Íslandsmótum fullorðinna og spiluðu  drengirnir í  2.flokki í 1.deild karla  ásamt því að spila með úrvalsdeildarliðinu.

Stúlkurnar  í 2 og 3.flokki spiluðu í 4.deild kvenna og urðu deildarmeistarar B liða og enduðu á því að vinna alla leikina sína á síðasta mótinu. Afturelding  Töff spilaði í 6.deild og vann deildina með glæsibrag. Afturelding Polska varð í 2.sæti í 2.deildinni og spilar því í 1.deild í haust. Önnur lið h

Þjálfarar

Í júlí fengum við þær fréttir að Edu þjálfari sem ætlaði að taka að sér áframhaldandi þjálfun mfl kvenna og 2-3flokks stúlkna kæmi ekki aftur og þurfti því að finna nýjan þjálfara fyrir mfl kvenna og yngri flokka kvenna.  Piotr Poskrobko var tilbúin að koma og hefur hann séð um úrvalsdeild kvenna og 2-3 flokk í vetur.

Piotr Kempa hélt áfram með mfl karla og 2.fl. karla ásamt því að þjálfa 4-5 flokkana. Alexandra Knasiak var fengin til að vera með æfingar fyrir 6.flokkinn.

Skólamót

Undanfarin 3 ár hefur Blakdeildin staðið fyrir skólamóti í blaki fyrir 6.bekkinga og er keppt um bikar milli Lágafells-og Varmárskóla og var  þetta mjög skemmtilegt og krakkarnir ánægðir sem og kennarar héldum við en í fyrrahaust ákváðu skólarnir að vera ekki lengur með í þessu verkefni og þykir okkur það miður því þetta var eina leiðin okkar til að ná til krakkanna og kynna þeim blakíþróttina.

UMSK hefur hins vegar hleypt af stokk skólamóti innan UMSK svæðisins og í maí 2018 voru um 600 krakkar sem mættu á fyrsta mótið og skemmtu sér hið besta.

Okkur í Blakdeild Aftureldingar þótti hins vegar leitt að sjá að skólarnir í Mosfellsbæ ákváðu að senda ekki alla aldurshópa á mótið og Varmárskóli tók ekki einu sinni þátt í mótinu.  Þetta verkefni er komið til að vera og í haust mun UMSK standa að öðru skólamóti og vonumst við til þess að skólarnir hér í bæ  taki virkan þátt í þessum skemmtilega degi og íþróttakennarar í Mosfellsbæ taki vel í að vera með blak í upphafi skólaárs því þetta skiptir sköpum fyrir fjölgun yngri iðkenda í deildinni.

Þakkir

Foreldrar innan blakdeildarinnar skipta gríðarlega miklu máli því án þeirra væri starfið ógerningur.  Margir fullorðnir blakarar eiga börn í deildinni og eru því oft að vinna vinnu bæði sem foreldri og einnig sem iðkandi í eldri hópum og ber það að virða því þetta fólk er að leggja mikið á sig fyrir deildina okkar og fyrir framtíð deildarinnar og vil ég þakka þeim sérstaklega fyrir þeirra framlag.

Blakdeild Aftureldingar leggur sitt af mörkum hvað blakið varðar á landsvísu því við eigum fólk sem starfa í nefndum og ráðum hjá Blaksambandi Íslands en það er eitt af því sem fylgir þegar deild er orðin stór á landsvísu og það er okkar deild klárlega þó við séum ekki mjög mörg eða mjög gömul miðað við aðrar blakdeildir í landinu.

Á ársþingi BLI á föstdaginn var, var nýr formaður Blaksambands Íslands kosin og er það Grétar okkar Eggertsson sem hefur tekið þátt í stjórn BUR og mfl ráði kvenna, og óskum við honum velfarnaðar á nýjum og stærri vettvangi og eins og venjulega erum við í blakdeild Aftureldingar tilbúin til að aðstoða ef með þarf, en Steinn G Einarsson hefur setið í varastjórn BLI og mun gera svo áfram. Ég , Gunna Stina hef einnig verið formaður yngri flokka ráðs BLI undanfarin áratug eða svo og Mundína Á Kristinsdóttir ásamt Kristínu Reynisdóttur og Berglindi Valdimarsdóttur aðstoðað og unnið með landsliðinum sem sjúkraþjálfarar og fararstjórar í ferðum þeirra undanfarin ár.

Ég lít björtum augum til framtíðar því ef öllum flokkum, liðum og ráðum innan deildarinnar auðnast að vinna áfram saman og styðja hvor aðra í að ná settum markmiðum þá nær blakdeildin að dafna áfram og eflast.

Eitt mikilvægt samstarf er happdrætti Blakdeildarinnar sem er samstarfsverkefni BUR og meistaraflokkanna okkar en þau eru  að selja happdrættismiða út þessa viku því það verður dregið nk sunnudag  þann 7.apríl  og hvet ég alla til að kaupa sér miða og styðja þannig við starfið í deildinni okkar og einnig að selja fólki í kringum sig. Margt smátt gerir eitt stórt eins og við vitum.

Ég vil þakka sérstaklega öllum stjórnarmeðlimum í ráðum deildarinnar fyrir þeirra mikla og óeigingjarna starf á liðnu starfsári og sérstakar þakkir fá þau ykkar sem hafa ákveðið að gefa ekki kost á sér áfram en með þá von í brjósti að það megi leita til ykkar áfram.

Guðrún Kristín Einarsdóttir
formaður blakdeildar Aftureldingar