Ávarp formanns

Starfsárið hjá handknattleiksdeild Aftureldingar hefur verið farsælt og hefur umgjörðin í kringum starfið vaxið mikið á tímabilinu. Deild stjórnarinnar skipa þau Hannes Sigurðsson formaður, Bjarki Sigurðsson varaformaður, Ólafur Hilmarsson ritari og Anna Reynis meðstjórnandi. Auk þeirra sitja í stjórn deildarinnar þau Haukur Sörli Sigurvinsson fyrir hönd meistaraflokksráð karla, Erla Dögg Ragnarsdóttir fyrir hönd meistaraflokkráðs kvenna og Bernharð Eðvarðsson fyrir hönd barna- og unglingaráðs.

Á starfsárinu hefur verið unnið í að móta skipulag og verkskiptingu innan stjórnar auk þess sem undirbúningsvinna fyrir stefnumótun deildarinnar er hafin. Vonir eru bundnar við að hægt verði að hefja stefnumótunarvinnu innan tíðar. Einnig hefur verið unnið í að styrkja stjórnir og starf meistaraflokkanna og styrkja rekstur ráðanna.

Gólf endurnýjað

Eitt stærsta mál tímabilsins hjá stjórn handknattleiksdeildarinnar var fylgja eftir kröfu síðustu ára um að gólfefni á íþróttasölum 1 og 2 að Varmá yrðu endurnýjað. Í dag er í sölunum dúklagt gólf á grind sem hefur staðið frá því að íþróttahúsið var tekið í notkun árið 1998.

Óskað var eftir að lagt yrði gegnheilt parket á fjaðrandi grind í samræmi við minnisblað sem Afturelding lagði fyrir bæjarráð. Til mikillar ánægju hefur bæjarráð Mosfellsbæjar samþykkt að auglýsa útboð á endurnýjun gólfefnisins og verður skipt um gólf í sumar.

Helstu verkefni á komandi tímabili verða að halda áfram að styrkja stoðir deildarinnar, efla starf ráðanna og fylgja eftir því öfluga starfi sem hefur verið unnið á yfirstandandi tímabili. Einnig að halda áfram að efla samheldni þeirra sem mynda okkar sterka hóp, bæði í innra og ytra starfi.

Í innra starfinu hafa leikmenn eldri flokka styrkt starf yngri flokkanna með því að taka að sér dómgæslu í heimaleikjum og á HSÍ mótum á vegum BUR, auk þess að taka þátt í uppskeruhátíð yngri iðkenda á vorin. Þessir aðilar eru fyrirmyndir í okkar starfi sem yngri iðkendur líta upp til. Einnig hafa foreldrar tekið að sér sjálfboðavinnu í kringum þá viðburði sem hafa farið fram á vegum deildarinnar og innan flokkanna. Án þessara aðila væri rekstur deildarinnar ekki mögulegur.

Styrktarklúbburinn Rothöggið

Sama á við um ytra starfið. Án stuðningsmanna okkar værum við ekki á þeim stað sem við erum í dag. Nýlega var stofnaður styrktarklúbbur handknattleiksdeildar Aftureldingar. Ber klúbburinn nafnið Rothöggið. Tilgangur klúbbsins er fyrst og fremst til að standa og styðja við bakið á handknattleik í Aftureldingu, bæði afreksstarf meistaraflokkanna sem og starf yngri flokka félagsins. Vonin er að til verði öflugt stuðningsnet fólks sem vill sjá handknattleik í Aftureldingu þróast og eflast um ókomin ár.

Stjórn Handknattleiksdeildarinnar vill þakka öllum þjálfurum, iðkendum, sjálfboðaliðum og styrktaraðilum fyrir sitt framlag á tímabilinu. Saman hefur þessi hópur myndað öfluga liðsheild sem hefur átt stóran hluti af því öfluga og farsæla starfi sem unnið hefur verið á tímabilinu. Án ykkar væri þetta ekki hægt.

Áfram Afturelding!

Hannes Sigurðsson,
formaður Handknattleiksdeildar