Skýrsla barna- og unglingaráðs

Handboltaveturinn 2018-2019 hefur einkennst af öflugu starfi, framförum iðkenda og sætum sigrum í yngri flokkum Aftureldingar. Barna- og unglingaráð (BUR) lagði strax áhersla á það í undirbúningi fyrir veturinn að ráða inn reynslumikla þjálfara en um leið að gefa nýjum og efnilegum þjálfurum tækifæri á að sýna sig og sanna undir handleiðslu Einars Andra Einarssonar yfirþjálfara yngri flokka.

Eitt af markmiðunum sem BUR setti sér var að fá inn íþróttafræðinga til að stýra yngstu iðkendunum í 8. flokki karla og 7-8. flokki kvenna. Íþróttafræðingarnir Ólafur Snorri Rafnsson og Bergvin Gísli Guðnason voru ráðnir til starfa en báðir starfa þeir sem íþróttakennarar við grunnskóla. Sú ákvörðun hefur átt þátt sinn í töluverðri fjölgun iðkenda í fyrrnefndum flokkum.

Fjölgun iðkenda

Í febrúar 2019 voru 274 iðkendur í yngri flokkum deildarinnar samanborið við 211 á síðasta tímabili. Hluti af fjölgun iðkenda í vetur kom í kjölfarið á auglýsingum í bæjarblaðinu Mosfellingi og á heimasíðu félagsins þar sem nýjir iðkendur voru hvattir til að koma og æfa án skuldbindinga á meðan á Heimsmeistarakeppninni í handbolta stóð. Fjölmennasti flokkurinn í vetur er 7. flokkur drengja undir stjórn Einars Andra Einarssonar en þar eru 54 drengir skráðir.

Mótahald

Barna- og unglingaráð hélt þrjú yngri flokka mót HSÍ á tímabilinu. Fyrsta mótið var haldið fyrir 8. flokk kvenna og karla að Varmá helgina 26.-28. október. Alls tóku um 400 krakkar þátt frá 13 félögum. Hjá mörgum var um að ræða fyrsta handboltamótið sem þau keppa á. Afturelding sendi sjö drengjalið og tvö stúlknalið til keppni og stóðu krakkarnir sig frábærlega. Annað mótið var haldið fyrir 5. flokk kvenna eldra ár helgina 16-18. nóvember. Keppt var í fimm deildum þar sem Afturelding sendi tvö lið til leiks. Þriðja og síðasta mótið var síðan haldið helgina 22.-24. mars 2019 fyrir 5. flokk karla eldra ár. Mótin hafa gengið mjög vel og BUR fundið fyrir ánægju meðal iðkenda, aðstandenda þeirra, mótastjóra HSÍ sem og starfsmanna íþróttamiðstöðvar.

Til þess að mótin gangi vel þarf að stóla á góða samvinnu sem og stuðning ýmissa aðila. Dómarar í leikjum eru allra jafna leikmenn meistaraflokks karla og kvenna. Þá hafa krakkar úr 4. og 5. flokki mannað ritaraborð og verið félaginu til sóma auk þess sem foreldrar iðkenda hafa aðstoðað í sjoppu. Aðstoð þessara aðila er okkur mikils virði og hluti af því mótin ganga vel fyrir sig.  Mótin eru ein helsta fjáröflun BUR á hverjum vetri. Leitað hefur verið til fyrirtækja til þess að styrkja kaup á vörum fyrir sjoppuna sem og á verðlaunapeningum. Eftirtalin fyrirtæki hafa styrkt okkur í vetur: MS, Ölgerðin, Grillmarkaðurinn og Sleggjan.

Fjármál

Barna- og unglingaráð hefur lagt áherslu á það undanfarin tvö ár að snúa rekstrinum við með miklu aðhaldi og sýnt skynsemi í öllum fjárútlátum í góðri samvinnu við aðalstjórn Aftureldingar. Rekstur deildarinnar hefur gengið vel í vetur. Þar munar töluvert um nýgerðan samning við Byggingafélagið Bakka sem verður aðalstyrktaraðili BUR. Að auki hefur MP Verk stutt vel við bakið á starfinu.

Markmið okkar verður að halda áfram uppbyggingu yngri flokka deildarinnar, ráða til okkar öfluga þjálfara og vera þannig í stakk búin til að taka vel á móti eldri sem og nýjum iðkendum á næsta ári. Vonir eru bundar við það að ná 300 iðkendum á næsta tímabili.

Með baráttukveðju,
Stjórn Barna og unglingaráðs