Skýrsla meistaraflokks kvenna

Meistaraflokkur kvenna hefur verið í mikilli uppbyggingu í vetur og er skemmst frá því að segja að árangurinn hefur verið frábær. Eftir tímabilið 2017-2018 sat liðið í neðsta sæti 1. deildar með aðeins 7 stig, en í dag er það efst með 29 stig þegar þrír leikir eru eftir í deildinni. Í bikarkeppninni sló olísdeildarlið KA/Þórs okkar stelpur naumlega út í 16-liða úrslitum, eftir æsispennandi leik þar sem munurinn var aðeins eitt mark að lokum.

Þjálfarateymið er skipað þeim Haraldi Þorvarðarsyni og Árna Braga Eyjólfssyni aðstoðarþjálfara.  Auk þeirra hefur Pálmar Pétursson komið að þjálfun markvarða og Margrét  verið sjúkraþjálfari liðsins.

Breytingar á leikmannahópi

Í haust fékk liðið góðan liðsstyrk þegar Kristín Arndís Ólafsdóttir kom á lánssamning frá Val, Ástrós Anna Bender kom frá Danmörku, Þóra Guðný Arnarsdóttir frá Gróttu og að lokum kom Kiyo Inage einnig frá Val.  Telma Rut Frímannsdóttir, Magnea Svansdóttir og Birgit Bylow Hybschmann hættu vorið 2018 og Ásta Margrét Jónsdóttir sl áramót.  Nú á vormisseri eru Íris Kristín Smith og Andrea Ósk Þorkelsdóttir að koma aftur eftir barnsburð og Sara Lind Stefánsdóttir eftir meiðsli en Selma Rut Sigurbjörnsdóttir er komin í pásu vegna barnsburðar. Þá má nefna að ungir leikmenn hafa verið að koma sterkir inn í hópinn og eru að eflast og undirbúa sig fyrir stærri hlutverk í vaxandi liði.

Nýtt meistaraflokksráð

Erla Dögg Ragnarsdóttir, formaður meistaraflokksráðs, Haraldur Þorvarðarson þjálfari, og Hannes Sigurðsson, formaður handknattleiksdeildar Aftureldingar.

Strax í fyrra vor fór Haraldur þess á leit við meistaraflokksráðið að það yrði styrkt og styddi betur við liðið.  Skipt var um stjórn á miðjum vetri þar sem Þorvaldur Einarsson baðst lausnar vegna fæðingarorlofs.  Ný stjórn tók því við um áramótin, sem er skipuð þeim Erlu Dögg Ragnarsdóttur formanni, Svövu Ýr Baldvinsdóttur og Írisi Sigurðardóttur meðstjórnendum og Guðfinnu Ármannsdóttur sem er áfram gjaldkeri.

Þeim til halds og trausts er gott bakland fólks sem tók áskorun um að efla starfið vel og hefur liðið fundið vel fyrir aukinni aðkomu þess m.a. með því að því og þjálfurum hefur verið boðið upp á mat og samveru eftir heimaleiki. Þykir okkur það framtak m.a. hafa ýtt undir góðan liðsanda, sem skiptir sköpum í þeirri uppbyggingu sem er í gangi.  Þá hefur umgjörð og vinna við heimaleiki styrkst með því að deila ábyrgð og vinnu á fleiri hendur.

Markmið liðs, þjálfara og meistaraflokksráðs eru háleit, þar sem stefnt er að góðum árangri með auknum vexti og styrk í kvennahandboltanum í Mosfellsbæ.

Erla Dögg Ragnarsdóttir,
formaður meistaraflokksráðs kvenna