Skýrsla yfirþjálfara

Yngri flokkarnir í handboltanum hjá Aftureldingu eru í miklum blóma þessi misserin. Mikil aukning er í fjöldi iðkenda sem æfa hjá afar færum þjálfurum deildarinnar. Öflugt unglingaráð er svo við stjórnvölin sem gerir það að verkum að starfið er afar öflugt.

Eins og fyrr segir eru mjög færir og reynslumiklir þjálfarar hjá félaginu. Nægir þar að nefna Sigrúnu Másdóttur, Bjarka Sigurðsson, Þorkel Guðbrandsson og Ingimund Helgason auk þess sem við fengum til liðs við okkur íþróttakennarana Ólaf Snorra Rafnsson og Bergvin Gísla Guðnason í þjálfun yngstu flokkana sem hefur skilað frábærum árangri og endurspeglast í gríðarlegri fjölgun í þessum flokkum. Auk þessara þjálfara erum við með unga og efnilega þjálfara sem eru og munu gera góða hluti í framtíðinni.

Afturelding starfrækir líkt og síðustu ár handboltaakademíu í samstarfi við Framhaldsskólann í Mosfellsbæ. Undirritaður Einar Andri Einarsson stýrir henni og styrktarþjálfari er Gunnar Malmquist.

Góður efniviður og metnaður

Margir efnilegir iðkendur eru innan raða félagsins og einnig eigum við mörg lið í fremstu röð.

Hlúa þarf vel að öllum flokkum bæði karla og kvenna megin og setja enn meiri kröfur á þjálfara og félagið að búa til gott umhverfi til þess að þessir krakkar og lið blómstri og dafni. Efniviðurinn er til staðar og metnaðurinn í félaginu líka.

Líkt og síðustu ár hafa verið haldin námskeið fyrir yngri flokka fyrir þá sem vilja bæta sig enn frekar í sinni íþrótt.

Nýtt gólf gjörbreytir aðstöðu deildarinnar

Ekki er hjá komist að hrósa bæjaryfirvöldum fyrir þá ákvörðun að skipta um gólf á íþróttahúsinu í Varmá. Þessi ákvörðun mun styrkja starfið okkar og hjálpa okkur enn frekar við að hlúa að okkar unga fólki og hjálpa þeim að ná markmiðum sínum.

Einar Andri Einarsson, yfirþjálfari