Skýrsla stjórnar

Árið 2018 var viðburðarríkt hjá sunddeildinni og hefur töluvert verið um breytingar á stjórn hennar. Eftir mikið rót, þar sem tvísýnt var um að hægt væri að halda úti afrekshópi, gaf enginn meðlimur fyrrverandi stjórnar kost á sér til áframhaldandi setu, á neyðaraðalfundi sem haldin var í maí 2018. Ný stjórn var kjörin; formaður, gjaldkeri og ritari, auk tveggja meðstjórnanda.

Undanfarin ár hefur dregið talsvert úr fjölda iðkenda og deildin þurft að sækja lán frá félaginu til að hægt sé að halda úti starfinu. Stærsta verkefni núverandi stjórnar árið 2018 var því að snúa þessu við, fjölga iðkendum og koma deildinni á réttan kjöl. Segja má að þetta markmið hafi náðst, þegar deildin stóð undir sér í mars 2019. Þó á enn eftir að endurgreiða félaginu lánið, en grundvöllur fyrir því er nú til staðar.

Nýjar áherslur og enduruppbygging

Samhliða stjórnarskiptum sagði yfirþjálfari deildarinnar starfi sínu lausu. Fyrsta verk nýrrar stjórnar var því ráðning yfirþjálfara og urðu þeir Daníel Hannes Pálsson og Hilmar Smári Jónsson fyrir valinu, en þeir deila starfinu sín á milli og koma þannig með mismunandi sérþekkingu að borðinu. Þeir nutu liðsinnis Agnesar Geirsdóttur og Sólrúnar Óskar Árnadóttur á árinu 2018, en auk þeirra hafa krakkarnir úr Gullhópnum aðstoðað við þjálfun yngstu krakkana og Sundskólann.

Sunddeildin skiptist upp í Höfrungahóp, Bronshóp, Silfurhóp og Gullhóp. Skiptingin miðast fyrst og fremst við aldur — 1. og 2. bekkur tilheyra Höfrungum, 3. og 4. bekkir eru í Bronshóp og 5. og 6. bekkir í Silfurhóp — en til að jafna út iðkendafjölda á milli hópa, hefur getustig líka stýrt því hvaða hópum krakkar tilheyra. Gullhópurinn er svo afrekshópurinn. Að auki kom deildin á fót Sundskóla Aftureldingar haustið 2018, en hann var ætlaður krökkum í eldri deildum leikskóla, 4 og 5 ára gömlum. Styrkur frá UMFÍ gerði deildinni kleift að borga þjálfurum þessa námskeiðis laun, en bjóða iðkendum þau endurgjaldslaust fyrstu önnina.

Á vormánuðum 2019 var svo Sundskólanum haldið við og þrátt fyrir að gjald væri tekið fyrir hann, var aðsóknin framar vonum. Enn var bætt í og efnt til Skriðssundnámskeiðs fyrir fullorðna. Tvö voru áætluð, en það seldist upp á seinna námskeiðið svo 3. námskeiðinu var bætt við.

Fyrir jól 2018 var haldið innanfélagsmót, þar sem krakkarnir buðu foreldrum sínum að koma og fylgjast með. Frábær mæting var meðal iðkenda og foreldra, og skilaði góð stemning á mótinu sér í góðri mætingu á foreldrafund sem boðað var til í upphafi árs. Þar voru kynntar áherslur og ræddar leiðir til að efla deildina enn frekar. Fjóröflunarnefnd var skipuð í kjölfar þessa fundar, með það að markmiði að vinna það starf í samvinnu við stjórnina. Að auki buðu foreldrar sig fram sem tengiliðir við stjórn.

Heldur dræm mæting var þó á aðalfund sem haldin var um miðjan mars, en þar var núverandi stjórn sjálfkjörin — að einum meðstjórnanda undanskildum, sem ekki gaf kost á sér.

Staða deildarinnar hefur batnað til muna, hún er ekki lengur rekin með tapi og iðkendum fjölgað eitthvað. Meiri áhersla hefur verið lögð á markaðsstarf deildarinnar og vegleg plaköt og dreifimiðar notaðir til að vekja athygli á íþróttinni.

Verið er að skoða enn fleiri leiðir til að fjölga iðkendum endurreisa orðspor deildarinnar — meðal annars að endurvekja Garpahóp og bjóða gömlum sundmönnum og kempum að koma aftur í sund.

Sundmót 2018

Sundmót Fjölnis fór fram í Laugardalslaug í mars. Þar var keppt í 50m laug. Á mótinu kepptu 12 sundmenn frá Aftureldingu sem allir stóðu sig mjög vel. Fjórir sundmenn úr okkar röðum unnu til verðlauna; Kolbrún Jónsdóttir vann til bronsverðlauna í 200m fjórsundi í flokki 15-17 ára. Sigurður Þráinn Sigurðsson vann til bronsverðlauna í 50m bringusundi en hann keppir einnig í flokki 15-17 ára. Birta Rún Smáradóttir fékk gull fyrir 50m skriðsund, silfur fyrir 100m baksund og brons fyrir 200m baksund. Birta keppir í flokki 13-14 ára. Aþena Karaolani vann gull í 200m fjórsundi og 100m baksundi. Ásamt því fékk hún silfur fyrir 400m skriðsund. Aþena keppir í flokki 18 ára og eldri.

Í mars var einnig haldið innanfélagsmót þar sem eldri sundmennirnir kenndu þeim yngri að keppa á sundmóti og heppnaðist mótið afar vel. Allir keppendur fengu þátttökuverðlaun að mótið loknu.

Vormót Ármanns var haldið í Laugardalslaug í apríl 2018 og voru þar 10 keppendur frá Aftureldingu.

Birta Rún var í fyrsta sæti í 50 skrið, 50 bak, 200 skrið og þriðja í 200 bringu í sínum aldursflokki.
Rökkvi var í öðru sæti í 50 flug í sínum aldursflokki. Júlíana Björt var í þriðja sæti í 200 bringu í sínum aldursflokki. Kolbrún var í öðru sæti í 50 skrið í sínum aldursflokki. Sigurður Þráinn var í þriðja sæti í 200 bak.

Landsbankamót ÍRB í Reykjanesbæ var haldið í maí en þar átti Afturelding 16 keppendur úr bæði silfur og gullhóp.

Aðalmót ársins var án efa Aldursflokkameistaramótið á Akureyri dagana 22. til 24. júní 2018. Þar kepptu fjórir einstaklingar fyrir Aftureldingu og fékk Birta Rún Smáradóttir bronsverðlaun fyrir baksund.

Fyrsta mót nýs vetrar var í september í Laugardalslaug og þar keppti gullhópurinn.

Extramót SH var haldið í október. Þar kepptu 4 einstaklingar fyrir Aftureldingu. Birta Rún Smáradóttir varð í 2. sæti í 200 m baksundi, Júlíana Björt Hjaltested varð í 3. sæti í 200 m bringusundi og Sigurður Þráinn Sigurðsson varð í 3. sæti í 200 m baksundi.

Í nóvember var sundmót í Laugardalslaug fyrir 14 ára og yngri.

Sundmót 2019

Árið byrjaði af krafti hjá Sunddeild Aftureldingar þegar 5 sundmenn kepptu á Reykjavík International Games, RIG í Laugardalslaug í lok janúar. Sundmenn deildarinnar stóðu sig með prýði á þessu stórmóti.

Gullmót KR var haldið í laugardalslaug í febrúar. Þar syntu 4 einstaklingar fyrir Aftureldingu og stóðu sig mjög vel.

Vormót Fjölnis var haldið í Laugardalslaug og var synt í 50 m laug í byrjun mars. Þar kepptu 6 einstaklingar fyrir Aftureldingu.

Ásvallamót SH var einnig haldið í mars. Þar var einnig synt í 50 m laug. Þangað fóru 6 keppendur Aftureldingar. Birta Rún Smáradóttir var í fyrsta sæti í 100 m baksundi.

F.h. sunddeildar Aftureldingar
Jón Ágúst Brynjólfsson, formaður